Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um 18 ára aldurstakmark vegna notkunar rafhlaupahjóla og akstur á götum - R21110108
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 122
1. desember, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 11. nóvember 2021 og vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs. Tillagan er svohljóðandi:
Svar

Tillaga Flokks fólksins að borgarráð beiti sér fyrir að 18 ára aldurstakmark sé sett til að aka um á rafmagnshlaupahjóli sem náð geta meira en 25 km hraða. Samkvæmt skilmálum rafhlaupahjólaleiga þarf notandi að vera orðinn 18 ára til að leigja og samkvæmt Samgöngustofu mega börn aka um á rafhlaupahjólum með leyfi foreldra. Einnig er lagt til að borgaryfirvöld hvetji löggjafann til að breyta lögum þannig að rafhlaupahjól sem aka á og yfir 25 km/klst. megi aka á götum eftir atvikum en samkvæmt lögum mega þær einungis aka á gang,- og hjólastígum. Komin eru á markað rafhlaupahjól sem komast enn hraðar, allt að 45 km/klst. Löggjafinn hefur ekki enn ákveðið hvort setja eigi aldurstakmark á þau hjól sem komast svo hratt eða hvar þau eigi að aka. Reykjavíkurborg getur sett sínar eigin reglur t.d. um hvort rafhlaupahjól eigi kannski heima á götum, hjólastígum eða gangstéttum. Banaslys hefur orðið þar sem rafmagnshlaupahjól kemur við sögu og óttast fulltrúi Flokks fólksins um börnin bæði sem notendur hjólanna og einnig að þau gætu orðið fyrir þeim. Fulltrúi Flokks fólksins vill að borgarstjórn ræði um rafhlaupahjól og öryggi notenda á þeim og þá ekki síst börnin í þessu sambandi. Ýmis tegundir af hjólum eru í notkun. Ekki er öllum ljóst hvaða hjól eiga heima á gangstéttum eða göngustígum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur komið með tillögu um að fræðsla verði um öryggismál rafhlaupahjóla innan skólakerfisins.

Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Aldursmörk vegna léttra rafknúinna farartækja þarf að skoða í samhengi við að aldursmörk bílprófs, en bílpróf veitir leyfi til aksturs talsvert þungra ökutækja frá allt að 17 ára aldri. Reykjavíkurborg hefur áður sent erindi ríkisins og beðið um breytingu á lögum til að heimila akstur léttra bifhjóla í flokki 1 á umferðarminni götum. Sú skoðun borgarinnar liggur fyrir og verður áréttuð í framtíðarvinnu við breytingar á umferðarlögum.
  • Flokkur fólksins
    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgaryfirvöld beittu sér fyrir að 18 ára aldurstakmark sé sett til að aka um á rafmagnshlaupahjóli sem náð geta meira en 25 km hraða. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að aldursmörk vegna léttra rafknúinna farartækja þarf að skoða í samhengi við að aldursmörk bílprófs. Það er ábyrgðarhluti að hunsa þessa tillögu nú þegar sprenging hefur orðið í tíðni alvarlegra slysa á rafhlaupahjólum Reykjavíkurborg getur sent erindi til ríkisins og óskað eftir samvinnu um þessi mál hið snarasta enda líf í húfi. Reykjavíkurborg verður að gera allt sitt til að draga úr slysum og beita sér fyrir að hjólin séu notuð með ábyrgum og öruggum hætti. Fram undan er hálkutíð og í hálku eru rafhlaupahjólin hættuleg. Það er ekki bara nóg að fagna þessum skemmtilega samgöngumáta heldur þarf að fræða um hvernig nota á þessi hjól “rétt” svo enginn hljóti skaða af. Reykjavíkurborg getur beitt sér fyrir því að efla vakningu meðal foreldra og fræðslu til barnanna um notkun hjólanna og um hætturnar í umferðinni. Annað vandamál er að dæmi eru um að hlaupahjól fari hraðar en leyfilegt sé, það er á 25 km hraða og eru þar með ólögleg.